Verkefnið

GróLind

Að frumkvæði Landsamtaka sauðfjárbænda var kveðið á um það í búvörusamningum sem undirritaðir voru 2016 að 300 milljónir króna yrði lagðar í sérstakt 10 ára verkefni til vakta og meta ástand gróður- og jarðvegsauðlinda á Íslandi. Tilgangurinn er m.a. að skjóta styrkari vísindalegum stoðum undir beitarstýringu með það fyrir augum að sauðfjárbeit verði sjálfbær til framtíðar. Gengið var frá samningi í mars 2017 á milli Landsamtaka sauðfjárbænda, Landgræðslu ríkisins, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Bændasamtaka Íslands. Landgræðsla ríkisins hefur  umsjón með verkefninu en jafnframt skipaði ráðherra fimm aðila í faghóp, undir formennsku fulltrúa landsambands sauðfjárbænda,  sem starfar með stofnuninni. Verkefnið hefur fengið heitið GróLind og er markmið þess að skila með reglubundnum hætti heildarmati á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda landsins, og þróa sjálfbærnivísa fyrir nýtingu auðlindanna.

Til að meta megi ástand gróður- og jarðvegsauðlindanna, breytingar þar á og áhrif mismunandi nýtingar- og umhverfisþátta á auðlindirnar, er nauðsynlegt að meta ástand vistkerfa. Ástand vistkerfa hefur bein áhrif á flæði orku og hringrás vatns- og næringarefna, og þar með á virkni þeirra og þanþol. Á árunum 2017-2019 verður aðferðarfræði vöktunar á ástandi vistkerfa þróuð en vöktunin mun hefjast sumarið 2019. Í byrjun verður lögð áhersla á að vakta afrétti og óræktuð heimalönd (úthaga) sem nýtt eru til beitar. Niðurstöður vöktunarinnar verða svo nýttar til að þróa sjálfbærni vísa að einnig verður fyrirliggjandi þekking nýtt og aukið á nauðsynlega þekkingu með rannsóknum.

Verkefnið er enn í þróun, nánari upplýsingar um gang verkefnisins má finna í ársskýrslu fyrir árið 2017.

Landgræðslan

Aðalskrifstofa | Gunnarsholti | 851 Hella | Sími 488-3000 | Fax 488-3010 | Netfang land@land.is

Share This