18.09.2018/ Í vor hófst áhugavert verkefni í tengslum við GróLind þar sem staðsetningartæki var sett á yfir 100 lambær sem ganga um afréttir og úthaga landsins. Verkefnið er samstarfsverkefni Landgræðslu ríkisins og Landssamtaka sauðfjárbænda, styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Markmið verkefnisins er að skoða atferli sauðfjár í sumarhögum í samstarfi við bændur um allt land.

Sumarið 2018 var haft samstarf við 11 bændur víðsvegar um land en meðfylgjandi má sjá kort sem sýnir staðsetningu kinda í verkefninu. Kortið er tekið af heimasíðu telespor.org og byggir á korti frá Landmælingum Íslands. Þarna má sjá hvar kindurnar voru staddar rétt eftir hádegi föstudaginn 17. ágúst.

Gögn sem safnað er með þessari tækni gefa miklar upplýsingar um ferðir sauðfjár, m.a. er hægt að fá upplýsingar um ferðalag/hreyfingu kindanna, hvar þær halda sig og hversu stórt svæði hver kind nýtir (þ.e. stærð heimasvæðisins). Þessum upplýsingum verður varpað á gróðurkort af Íslandi til að fá mat á því í hvernig gróðurlendi þær sækja helst. Þar sem að úrtakið er stórt og fylgst verður með sauðfé víða um land,bæði á láglendi og hálendi verður einnig hægt að meta hversu almennar þær niðurstöður sem við fáum eru og hvort að beitaratferli sauðfjár sé breytilegt t.d. eftir ástandi lands. Niðurstöðurnar munu því nýtast beint í þeirri vinnu sem er í gangi við að auka þekkingu okkar þannig að hægt verði að bæta beitarstjórnun á Íslandi.

Að auki verður hægt að tengja ofangreindar niðurstöður við þunga lamba og áa til að fá vísbendingar um hvort tengsl eru á milli þrifa sauðfjár og þess hvar það gengur.

Verkefni þetta hefur fengið töluverða umfjöllun í fjölmiðlum sjá:
Grein í Bændablaðið (bls 17):
Hádegisfréttir Bylgjunar
Morungútvarp Rásar 2
Samfélagið á Rás 1
Morgunblaðið

Share This